Upplýsingagjöf Family Link til foreldra barna undir 13 ára aldri (eða þeim aldri sem á við í þínu landi)

Skoða upplýsingar um persónuvernd fyrir Google-reikninga og prófíla barna undir 13 ára aldri (eða þeim aldri sem við á í þínu landi) sem stjórnað er með Family Link.

Verið velkomin, foreldrar!

Traust þitt er í forgangi hjá okkur og við vitum að það er stór ákvörðun að leyfa barninu sínu að vera með Google-reikning. Gefðu þér tíma til að fara yfir þessar mikilvægu upplýsingar og kynna þér málið betur.

Google-reikningur barnsins

Google reikningur barnsins verður eins og þinn og veitir aðgang að ýmsum vörum og þjónustum frá Google, þar á meðal þjónustum sem hafa ekki verið hannaðar fyrir eða sniðnar að börnum. Barnið þitt gæti notað reikninginn sinn til að gera eftirfarandi:

  • Spyrja spurninga, fá aðgang að og leita á internetinu með Google hjálpara, Chrome og Leit.

  • Eiga í samskiptum við aðra með Gmail, SMS-skilaboðum, myndsímtölum, símtölum og öðrum samskiptaleiðum.

  • Sækja, kaupa og nota forrit, leiki, tónlist, kvikmyndir og fleira.

  • Búa til, skoða og deila myndum, myndskeiðum, kynningum, skjölum og öðru efni.

  • Fylgjast með heilsu- og hreystiupplýsingum á borð við virknistöðu og hjartslátt í Google Fit (fer eftir tæki barnsins).

  • Sjá samhengismiðaðar auglýsingar á meðan barnið notar þjónustur Google.

Family Link og foreldraeftirlit

Forritið Family Link frá Google er hannað til að hjálpa þér að setja grundvallarreglur og leiðbeina barninu þínu varðandi netnotkun. Barnið verður hluti af Google fjölskylduhópnum þínum, sem þú getur notað til að deila Google þjónustum með barninu þínu og allt að fjórum öðrum fjölskyldumeðlimum. Síðar geturðu bætt við öðru foreldri sem getur aðstoðað þig við að hafa umsjón með reikningi barnsins. Foreldrar geta notað Family Link til að:

  • Stilla takmörkun á skjátíma í Android eða ChromeOS tækjum barnsins;

  • Sjá staðsetningu innskráðra og virkra Android tækja barnsins;

  • Samþykkja niðurhal og kaup barnsins á Google Play og Stadia eða takmarka sýnileika efnis með aldursstillingum;

  • Hjálpa barninu að velja hvers konar virkni má vista á Google reikningnum og hvernig má nota hana til að sérsníða upplifun þess;

  • Stjórna stillingum eins og SafeSearch fyrir Google-leit;

  • Fara yfir heimildir forrita í tæki barnsins, eins og aðgang að hljóðnema, myndavél og tengiliðum í Android og ChromeOS, og

  • Breyta efni, aðgengi og öðrum stillingum upplifunar á YouTube (þar sem það er í boði), þ.m.t. á YouTube og YouTube Kids.

Þrátt fyrir að barnalæsingar Family Link geti hjálpað þér að hafa umsjón og eftirlit með upplifun barnsins skaltu hafa eftirfarandi takmarkanir í huga:

  • Þrátt fyrir að hægt sé að stjórna ýmsum barnalæsingum Family Link á vefnum þarftu að vera með Family Link forritið í Android eða iOS-tæki til að stjórna tilteknum eiginleikum, svo sem takmörkunum á skjátíma.

  • Stillingar á borð við SafeSearch, vefsvæðatakmarkanir Chrome og Play Store síur geta komið að gagni við að takmarka aðgang að óviðeigandi efni en þær eru ekki fullkomnar. Jafnvel þótt kveikt sé á þessum stillingum gæti barnið fengið aðgang að efni sem þú vilt ekki að það sjái.

  • Ekki er beðið um samþykki foreldris þegar barnið sækir aftur forrit eða annað efni sem áður var samþykkt, setur upp uppfærslu á forriti (jafnvel uppfærslu sem bætir við efni eða biður um viðbótarupplýsingar eða heimildir) eða sækir samnýtt efni úr fjölskyldusafninu þínu á Google Play.

  • Tiltækileiki sumra eiginleika Family Link er takmarkaður og þarfnast sérstakra stillinga og aðstæðna til þess að virka. Til dæmis er aðeins hægt að loka á forrit þegar barnið er skráð inn í samhæft Android eða ChromeOS tæki og aðeins er hægt að sjá staðsetningu tækis barnsins í Family Link forritinu þegar kveikt er á Android tækinu og það tengt við internetið.

Þegar barnið nær 13 ára aldri (aldur getur verið mismunandi eftir löndum) getur það valið að stjórna sínum eigin reikningi án eftirlits.

Virtu aðra

Ýmis þjónusta sem við veitum gerir barninu þínu kleift að eiga samskipti við aðra sem nota þjónustur okkar. Við viljum stuðla að umhverfi þar sem öllum er sýnd virðing. Þetta þýðir að barnið verður að fylgja grundvallarsiðareglum, misnota hvorki né skaða aðra eða sjálft sig (eða hóta eða hvetja til slíkrar misnotkunar eða skaða) — t.d. með því að villa um fyrir, svindla á, ófrægja, leggja í einelti, áreita eða ofsækja aðra, eða dreifa hatursfullu efni opinberlega (eins og efni sem kyndir undir hatri eða mismunun á fólki á grundvelli uppruna, kynþáttar, trúarbragða, kyns, kynhneigðar o.s.frv.) þegar það notar þjónustur okkar. Birting á hatursfullu efni kann að skapa einkaréttar- eða refsiábyrgð, bæði hvað þig og barnið varðar.

Persónuvernd barnsins

Til að barnið þitt geti átt sinn eigin Google-reikning eða -prófíl gætum við þurft samþykki þitt til að safna, nota eða veita upplýsingar um barnið eins og fram kemur í þessum upplýsingum um persónuvernd og persónuverndarstefnu Google. Þú og barnið treystið okkur fyrir upplýsingunum ykkar þegar þú leyfir barninu að nota þjónusturnar okkar. Okkur er ljóst að slíku fylgir mikil ábyrgð og við leggjum okkur fram við að vernda upplýsingarnar þínar og setja þig við stjórnvölinn. Þú getur valið hvort að barnið geti stjórnað virknistýringum sínum sjálf fyrir hluti á borð við vef- og forritavirkni og YouTube-feril og hvort það geti tengt tilteknar Google-þjónustur, á svæðum þar sem það á við.

Þessar upplýsingar um persónuvernd fyrir Google-reikninga og prófíla fyrir börn undir 13 ára aldri (eða viðeigandi aldri í þínu landi) sem stjórnað er í gegnum Family Link og persónuverndarstefna Google útskýra vinnureglur Google um persónuvernd. Ef vinnureglur um persónuvernd sem eiga sérstaklega við um reikning eða prófíl barnsins eru til staðar, til dæmis með tilliti til takmörkunar á sérsniðnum auglýsingum, er munurinn útskýrður í þessum upplýsingum um persónuvernd.

Þessar upplýsingar um persónuvernd gilda ekki um forrit, aðgerðir eða vefsvæði þriðju aðila (ekki Google) sem barnið þitt kann að nota. Þú ættir að fara yfir gildandi skilmála og reglur fyrir forrit, aðgerðir og vefsvæði þriðju aðila, þar á meðal vinnureglur um söfnun og notkun gagna, til að ákvarða hvort þetta sé viðeigandi fyrir barnið þitt.

Upplýsingar sem við söfnum

Þegar þú hefur veitt barninu þínu leyfi til að vera með Google-reikning eða prófíl verður almennt farið með reikning þess eða prófíl eins og þinn eigin hvað varðar upplýsingar sem við söfnum. Meðal þess sem við söfnum er:

Upplýsingar sem þú og barnið þitt búið til eða veitið okkur.

Við kunnum að biðja um persónuupplýsingar eins og fornafn og eftirnafn, netfang og fæðingardag þegar reikningur eða prófíll er stofnaður. Við söfnum upplýsingum sem þú eða barnið gefur upp, þar á meðal samskiptaupplýsingum þínum á netinu, svo við getum haft samband við þig til að biðja um samþykki. Við söfnum einnig upplýsingunum sem barnið býr til, hleður upp eða fær frá öðrum þegar það notar reikninginn sinn eða prófílinn, eins og þegar barnið vistar mynd í Google-myndum eða býr til skjal í Google Drive.

Upplýsingar sem við fáum þegar barnið notar þjónustu okkar.

Við söfnum og geymum sjálfkrafa ákveðnar upplýsingar um þjónustuna sem barnið þitt notar og hvernig það notar hana, eins og þegar barnið slær inn fyrirspurn í Google-leit, talar við Google hjálparann eða horfir á myndskeið á YouTube Kids. Meðal slíkra upplýsinga má nefna:

  • Forrit barnsins, vafrar og tæki

    Við söfnum upplýsingum um forritin, vafrana og tækin sem barnið þitt notar til að fá aðgang að þjónustu Google, þar á meðal um einstök auðkenni, gerð og stillingar vafra, gerð og stillingar tækis, stýrikerfi, upplýsingum um farsímanet, þar með talið nafn farsímafyrirtækis og símanúmer, og útgáfunúmer forrits. Við söfnum einnig upplýsingum um samskipti forrita, vafra og tækja barnsins við þjónustu okkar, þar á meðal IP-tölu, hrunskýrslum, kerfisaðgerðum og dagsetningu, tíma og tilvísunarvefslóð á beiðni barnsins. Til dæmis söfnum við þessum upplýsingum þegar Google þjónustan í tæki barnsins hefur samband við netþjóna okkar, eins og þegar barnið setur upp forrit frá Play Store.

  • Virkni barnsins

    Við söfnum upplýsingum um aðgerðir barnsins í þjónustum okkar og nýtum þær, í samræmi við stillingar barnsins, til dæmis til að koma með tillögur að forritum sem því gæti líkað í Google Play. Þú getur valið hvort að barnið geti stjórnað virknistýringum sínum sjálft. Upplýsingarnar sem við söfnum um aðgerðir barnsins geta innihaldið hluti eins og leitarfyrirspurnir, vídeó sem það horfir á, radd- og hljóðupplýsingar þegar það notar hljóðeiginleika, fólk sem það hefur samskipti við eða deilir efni með og vafraferil í Chrome sem það hefur samstillt við Google-reikninginn sinn. Ef barnið þitt notar þjónustur okkar til að hringja og taka á móti símtölum eða senda og taka við skilaboðum, t.d. með Google Meet eða Duo, söfnum við hugsanlega upplýsingum um símanotkun. Barnið þitt getur farið inn á Google-reikninginn sinn til að finna og stjórna upplýsingum um virkni sína sem eru vistaðar á reikningi eða prófíl barnsins. Þú getur einnig hjálpað til við að stjórna upplýsingum um virkni með því að skrá þig inn á Google-reikning barnsins eða fara inn á prófíl þess í Family Link.

  • Upplýsingar um staðsetningu barnsins

    Við söfnum upplýsingum um staðsetningu barnsins þegar það notar þjónustu okkar. Hægt er að ákvarða staðsetningu barnsins með því að nota GPS, IP-tölu, skynjaragögn úr tækinu og upplýsingar um hluti nálægt því, svo sem WiFi-aðgangsstaði, farsímaturna og tæki sem eru með kveikt á Bluetooth. Tegundir staðsetningargagna sem við söfnum velta að einhverju leyti á stillingum þínum og tæki barnsins.

  • Radd- og hljóðupplýsingar barnsins

    Við kunnum að safna radd- og hljóðupplýsingum barnsins þíns. Ef barnið þitt notar til dæmis skipanir fyrir hljóðvirkjun (t.d. „Ok Google“ eða snertir hljóðnematáknið) gæti verið unnið úr upptöku af röddinni/hljóðinu til að verða við beiðni barnsins. Ef einnig er kveikt á radd- og hljóðvirkni fyrir barnið í stillingu vef- og forritavirkni kann upptaka af raddsamskiptum barnsins í innskráðu tæki við Hjálparann (auk nokkurra sekúndna þar á undan) að vera vistuð á reikningi barnsins.

Við notum ýmsa tækni til að safna upplýsingum barnsins þíns og geyma þær, þar á meðal fótspor, pixlamerki, staðbundna geymslu, svo sem vefgeymslu vafra eða skyndiminni forritsgagna, gagnagrunna og netþjónsannála. Við krefjumst þess ekki að barnið þitt leggi til meiri persónuupplýsingar en telst nauðsynlegt til að nota vörur og þjónustu Google sem eru í boði fyrir þessa reikninga eða prófíla.

Hvernig við notum upplýsingar sem við söfnum

Í persónuverndarstefnu Google eru frekari upplýsingar um það hvernig við kunnum að nota gögnin sem Google safnar í tengslum við Google-reikning eð prófíl barnsins. Almennt notum við upplýsingar barnsins þíns til að: veita, viðhalda og bæta þjónustu okkar; þróa nýja þjónustu; sérsníða þjónustu okkar fyrir barnið þitt; mæla árangur og skilja hvernig þjónusta okkar er notuð; hafa beint samband við barnið þitt í tengslum við þjónustu okkar; og til að bæta öryggi og áreiðanleika þjónustu okkar.

Við notum mismunandi tækni til að vinna úr upplýsingum barnsins þíns í þessum tilgangi. Við notum sjálfvirk kerfi sem greina efni barnsins til að veita því sérsniðnar leitarniðurstöður eða aðra eiginleika sem eru sniðnir að notkun þess á þjónustum okkar. Við greinum einnig efni barnsins til að geta greint misnotkun á borð við ruslpóst, spilliforrit og ólöglegt efni. Við notum einnig reiknirit til að bera kennsl á mynstur í gögnum. Þegar við finnum ruslpóst, spilliforrit, ólöglegt efni og aðrar gerðir misnotkunar á kerfum okkar sem brjóta í bága við reglur okkar lokum við hugsanlega reikningi eða prófíl barnsins eða grípum til viðeigandi ráðstafana. Við tilteknar aðstæður tilkynnum við viðeigandi yfirvöldum um slík brot.

Við kunnum að nota upplýsingar barnsins þíns til að birta tillögur, sérsniðið efni og leitarniðurstöður, en það fer eftir stillingum barnsins. Google Play mun til dæmis hugsanlega nota upplýsingar, eins og forrit sem barnið þitt hefur sett upp, til að stinga upp á nýjum forritum sem því gæti líkað, en það fer eftir stillingum barnsins.

Auk þess kunnum við að sameina upplýsingarnar sem við söfnum úr þjónustunum okkar og tækjum barnsins í ofangreindum tilgangi, en það fer eftir stillingum barnsins. Aðgerðir barnsins á öðrum vefsvæðum og forritum kunna að verða tengdar við persónuupplýsingar þess til að bæta þjónustur Google, en það fer eftir reiknings- og prófílstillingum barnsins.

Google mun ekki birta barninu þínu sérsniðnar auglýsingar sem þýðir að auglýsingar munu ekki byggjast á upplýsingum af reikningi eða prófíl barnsins. Í staðinn kunna auglýsingar að byggjast á upplýsingum eins og innihaldi þess vefsvæðis eða forrits sem barnið þitt skoðar, núverandi leitarfyrirspurn eða almennri staðsetningu (til dæmis borg eða ríki). Þegar barnið vafrar á vefnum eða notar forrit sem eru ekki á vegum Google gæti það rekist á auglýsingar sem birtar eru af öðrum veitanda (utan Google), þar á meðal auglýsingar sem sérsniðnar eru af þriðja aðila.

Upplýsingar sem barnið þitt getur deilt

Barnið þitt kann að geta deilt upplýsingum opinberlega og með öðrum, þar á meðal myndum, myndskeiðum, hljóði og staðsetningu, þegar það er skráð inn á Google reikninginn eða prófílinn sinn. Þegar barnið þitt deilir upplýsingum opinberlega kunna þær að verða aðgengilegar í gegnum leitarvélar eins og Google-leit.

Upplýsingar sem Google deilir

Deila má upplýsingum sem við söfnum utan Google við takmarkaðar kringumstæður. Við deilum ekki persónuupplýsingum með fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum utan Google nema í eftirfarandi tilvikum:

Með samþykki

Við deilum persónuupplýsingum utan Google ef þú hefur gefið heimild til þess (eftir því sem við á hverju sinni).

Með fjölskylduhópnum þínum

Upplýsingum barnsins þíns, þar með talið nafni, mynd, netfangi og kaupum í Play, kann að vera deilt með meðlimum fjölskylduhópsins á Google.

Til ytri greiningar gagna

Við veitum hlutdeildarfélögum okkar og öðrum fyrirtækjum og einstaklingum sem við treystum persónuupplýsingar til úrvinnslu fyrir okkar hönd, á grundvelli leiðbeininga frá okkur og í samræmi við þessar upplýsingar um persónuvernd og persónuverndarstefnu Google og aðrar viðeigandi trúnaðar- og öryggisreglur.

Af lagalegum ástæðum

Við deilum persónuupplýsingum með fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum utan Google ef við teljum, í góðri trú, að aðgangur að þeim, notkun á þeim eða birting á þeim teljist nauðsynleg til að:

  • fylgja öllum viðeigandi lögum, reglugerðum, málsmeðferðum eða framfylgja beiðnum yfirvalda;

  • framfylgja viðeigandi þjónustuskilmálum, þar á meðal til að rannsaka hugsanleg brot;

  • greina, koma í veg fyrir eða bregðast á annan hátt við svikum, öryggisbrotum eða tæknivandamálum;

  • verja réttindi, eignir og öryggi Google, notendur okkar eða almenning fyrir skemmdarverkum, eins og lög mæla fyrir um eða leyfa.

Við kunnum einnig að deila ópersónugreinanlegum upplýsingum (til dæmis upplýsingum sem sýna þróun í almennri notkun á þjónustu okkar) opinberlega og með samstarfsaðilum okkar — til dæmis útgefendum, auglýsendum, þróunaraðilum eða rétthöfum. Við deilum til dæmis upplýsingum opinberlega í því skyni að sýna þróun í almennri notkun á þjónustu okkar. Við leyfum einnig tilteknum samstarfsaðilum okkar að safna upplýsingum úr vöfrum eða tækjum í auglýsinga- og mælingarskyni með því að nota eigin fótspor eða svipaða tækni.

Aðgangur að persónuupplýsingum barnsins

Ef barnið þitt er með Google-reikning geturðu fengið aðgang að, uppfært, fjarlægt, flutt út og takmarkað vinnslu upplýsinga barnsins með því að skrá þig inn á Google-reikning þess. Ef þú manst ekki aðgangsorð barnsins geturðu endurstillt það í Family Link forritinu eða í stillingum Family Link á vefnum. Eftir að þú skráir þig inn geturðu notað ýmsar stýringar sem lýst er í persónuverndarstefnu Google, til dæmis virknistýringar Google, til að hafa umsjón með persónuverndarstillingum og upplýsingum barnsins.

Ef barnið þitt er með prófíl geturðu fengið aðgang að, uppfært, fjarlægt, flutt út og takmarkað vinnslu upplýsinga barnsins í gegnum Family Link forritið eða stillingar Family Link á vefnum.

Barnið þitt mun geta eytt fyrri virkni sinni í „Mín virkni“ og mun sjálfgefið geta veitt þriðja aðila forritaheimildir (þar á meðal fyrir staðsetningu tækis, hljóðnema eða tengiliði). Þú getur líka notað Family Link til að breyta upplýsingum á Google reikningi eða prófíl barnsins, fara yfir forritavirkni og heimildir forrita og stjórna getu barnsins til að veita ákveðnum forritum eða þjónustum þriðju aðila heimildir til að fá aðgang að upplýsingum þess.

Ef þú vilt stöðva frekari söfnun eða notkun á upplýsingum barnsins geturðu eytt Google-reikningi eða -prófíl barnsins með því að smella á „Eyða reikningi“ eða „Eyða prófíl“ á upplýsingasíðu reiknings eða prófíls barnsins í Family Link-forritinu eða stillingum Family Link á vefnum. Upplýsingum af reikningi eða prófíl barnsins verður eytt varanlega að ásættanlegum tíma liðnum.

Hafðu samband

Ef þú ert með spurningar um Google-reikning eða prófíl barnsins skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Við erum hér til að hjálpa. Frekari upplýsingar um Family Link og Google-reikning eða prófíl barnsins má finna í hjálparmiðstöðinni. Þú getur einnig sent okkur ábendingar um Family Link eða Google-reikning eða prófíl barnsins í Family Link forritinu með því að ýta á „Valmynd ☰ > Hjálp og ábendingar > Senda ábendingu“, eða með því að senda okkur tölvupóst eða póst á heimilisfangið hér fyrir neðan.

Google
1600 Amphitheatre Parkway
Mountain View, CA 94043 USA
Sími: +1 855 696 1131 (BNA)
Skoðaðu g.co/FamilyLink/Contact ef þú ert í öðru landi

Ef þú ert með spurningar um hvernig Google safnar og notar gögn barnsins geturðu haft samband við Google og gagnaverndarskrifstofuna okkar. Þú getur einnig haft samband við gagnaverndaryfirvöld í þínu landi ef þú hefur áhyggjur af réttindum þínum samkvæmt landslögum.

Skoða tilkynningu Family Link til foreldra barna undir 13 ára aldri (eða viðeigandi aldri í þínu landi)

Google forrit
Aðalvalmynd